
Björg Brjánsdóttir & Ingibjörg Elsa Turchi
Björg Brjánsdóttir flautuleikari vinnur með ýmsum hópum þvert á tónlistarstefnur ásamt því að semja eigin tónlist og hefur hún einbeitt sér síðastliðin ár að samstarfi við ýmis tónskáld og flutningi á nýjum einleiksverkum fyrir þverflautu. Björg var tilnefnd sem Flytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2022 og meðal annars komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Elju kammersveit, Sinfóníuhljómsveit unga fólksins, Íslenska flautukórnum og Íslenskum strengjum. Hún er flautuleikari tónlistarhópsins Caput og hefur sinnt fjölmörgum hljómsveitarverkefnum, að mestu í Þýskalandi, í Noregi og á Íslandi. Jafnframt er hún einn stofnenda Elju kammersveitar kammersveitarinnar Elju sem hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi undanfarin misseri. Björg tilheyrir flautuseptettinum viibru sem hefur unnið með Björk Guðmundsdóttur frá árinu 2016 og ferðast með henni um heiminn til að flytja tónsýningu hennar, Cornucopiu. Fyrsta plata Bjargar, GROWL POWER, kom út í janúar 2024 með fjórum einleiksverkum fyrir flautur eftir Báru Gísladóttur. Útgáfutónleikarnir voru opnunartónleikar Myrkra músíkdaga og hlaut frábærar viðtökur. Önnur plata Bjargar, Knega, er væntanleg með sex nýjum einleiksverkum fyrir þverflautu eftir Pál Ragnar Pálsson, Berglindi Maríu Tómasdóttur, Hauk Þór Harðarson, Tuma Árnason, Nönnu Søgaard og Ingibjörgu Elsu Turchi. Auk þess kom verk hennar, Eyg, út í maí síðastliðnum á plötu viibru septets undir merkjum Marvöðu útgáfu í maí síðastliðnum.
Bassaleikarinn og tónskáldið Ingibjörg Elsa Turchi (1988) hefur verið afar sýnileg í íslensku tónlistarlífi sl.ár og hefur komið fram með mörgum af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar, svo sem Emilíönu Torrini, Bubba Morthens, Stuðmönnum og Teiti Magnússyni, bæði á tónleikum og upptökum. Meðal fleiri samstarfsaðila má nefna Röggu Gísla, Mikael Mána, Skuggamyndir frá Býsans, Hróðmar Sigurðsson og Soffíu Björgu, svo fátt eitt sé nefnt. Hún hefur einnig samið verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og Stórsveit Reykjavíkur og tekið þátt í verki Ragnars Kjartanssonar, Kona í e moll, í Listasafni Reykjavíkur. Ingibjörg gaf út stuttskífuna Wood/Work árið 2017 þar sem rafbassinn var í aðalhlutverki. Í júlí 2020 gaf Ingibjörg svo út sína fyrstu plötu í fullri lengd, Meliae. Hlaut platan titilinn Plata ársins í Djassflokki á Íslensku tónlistarverðlaununum 2021 og tilnefningu til Hyundai Nordic Music Prize sama ár. Árið 2023 kom út hennar seinni plata í fullri lengd, Stropha. Hún fékk 4 stjörnur hjá Heimildinni, var á flestum árslistum 2023 og fékk tilnefningu á Íslensku tónlistarverðlaununum í flokknum Upptökustjórn ársins. Hún hefur leikið á bassa í hljómsveitum í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu og verið í húsbandi Idol-stjörnuleitar sl.tvö ár. Ingibjörg stundaði rafbassanám í Tónlistarskóla FÍH, lauk BA-prófi í Tónsmíðum frá LHÍ og lagði þar einnig stund á rytmísk kennslufræði. Einnig er hún með BA-gráður í latínu og forngrísku frá HÍ. Ingibjörg er einn stofnenda Stelpur rokka! á Íslandi og hefur kennt þar og sinnt ýmsum verkefnum frá upphafi.