Heimsókn á Háveg

Heimsókn á Háveg

Við Háveg í Kópavogi, norðan megin götunnar, eru ummerki búsetu síðastliðinna sjötíu ára að mýkjast (tímabundið), með nýjum áformum og framkvæmdum til þess að þétta byggðina á Digranesinu. Þar er gróður að taka yfir í sumum görðum en hörð möl að má út mýktina í öðrum svo hægt sé að koma fyrir byggingarefni og leggja þar bílum og vinnuvélum.

Húsin átta við Háveg voru byggð uppúr 1949 og hafa því staðið þar í rúm sjötíu ár. Garðarnir hafa tekið gróðurfarslegum breytingum sem hefur haft áhrif á líf í þeim og í kring. Sum af trjánum hafa verið sett niður í jörðu snemma og eru orðin allhá, þar ber mest á Sitkagreni, Lerki, Birki, Ösp og Reynivið en þar er líka undurfagur Hlynur með fagurmótaða krónu. Gullregn er sjálfsáð á milli garða. Þó svo að flestir garðarnir séu í dag nánast óhyrtir þá má enn sjá móta fyrir beðum og gras- og gróðurflötum og þar er líka að finna eina steypta blámálaða tjörn. Ummerki eru víða um garðyrkju og sköpunargleði íbúa og áhuga þeirra á að fegra umhverfið fyrir sig og aðra.

Síðastliðin ár höfum við fylgst með breytingum við Háveginn og gróðrinum og fjölbreyttu líf formum meðal annars með ljósmyndum, dagbókarskrifum, plöntuskráningum, fræsöfnun og samtölum.

Í aðdraganda Hamraborgarhátíðarinnar höfum við gengið með enn fleirum um götuna og á milli garðanna, við höfum tekið saman eitthvað af því efni sem við höfum skráð og samið til þess að vinna bókverk sem er eins konar tímapunktur í vaxtarferli garðanna og tímapunktur í okkar hugsunum og athugunum sem eru samofnar görðunum.

Garðarnir halda áfram að breytast, plöntur vaxa og aðrar hverfa, við ferðumst um og höldum áfram að fylgjast með af athygli.

Á Hamraborgarhátíð bjóðum við gestum með okkur í göngu um Háveginn og deilum sögum og heyrum vonandi nýjar sögur af plöntum, íbúum, breytingum, af Hávegi í gær, í dag og á morgun.


Sjá aðra viðburði