
"Þessi gangstéttarhella veitir skjól fyrir tegund sem er hvergi velkomin. Þrátt fyrir vistfræðilegt hlutverk, fegurð og notagildi þá eru túnfíflar óvinsælir í görðum borgarbúa og eru þar oftast reittir upp með rótum eða eitrað fyrir þeim. Fíflarnir fá ekki einu sinni að vera í friði í Grasagarðinum. En hér í Hamraborg fá jaðarsettir einstaklingar kærkomið steypuskjól.
Gangstéttin mun lifa okkur öll. Mannljónið sem á uppruna sinn í handritum og höggmyndum miðalda er nú komið á götuna. Ljónið fær það hlutverk að vernda fífilinn og allar komandi kynslóðir sem að munu spretta upp úr gangstéttarhellum forfeðra sinna. Megi Hamraborgin lifa í þúsund ár og illgresið vera þar ávallt velkomið."